Kröfuhafar Kaupþings hafa rætt um að stofna eignastýringarfyrirtæki sem stýri eignum gamla Kaupþings. Litið er til fyrirmynda að nauðasamningum hér heima og erlendis. Þess má geta að fjárfestingarbankinn Straumur var reistur við til að sjá um eignir ALMC, eignarhaldsfélags kröfuhafa gamla Straums.

„Það liggur ekki fyrir hvernig þetta verður útfært,“ segir Feldís Óskarsdóttir, sem á sæti í slitastjórn Kaupþings. Þegar nauðasamningar verða í höfn verður Kaupþing að eignarhaldsfélagi. Fulltrúar kröfuhafa taka við stjórn þess og fer þá slitastjórnin frá. Alþjóðlegt ráðningarfyrirtæki vinnur nú þegar að því að finna framkvæmdastjóra og aðila með þekkingu, reynslu og bakgrunn til setu í stjórn eignarhaldsfélagsins sem tekur við Kaupþingi. Bæði er leitað eftir íslenskum og erlendum aðilum.

Á kröfuhafafundi slitastjórnar í gær voru kynntar hugmyndir um næstu skref. Fyrir liggur að taka þurfi ákvörðun um hvort stefna eigi að nauðasamningi eða óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Stefnt er að því að leggja nauðasamninga fram á 3. ársfjórðungi. Feldís bendir á að lagt hafi verið upp með að gera það á þessu ári þótt nákvæmari tímasetningar hafi ekki áður verið nefndar. Hún bætir við að ýmislegt geti tafið fyrir því.

Fram kemur í gögnum sem lögð voru fyrir á kröfuhafafundinum að Kaupþing sækist eftir staðfestingu á því að Seðlabankinn setji reglur sem leyfi að reiðufé í erlendum gjaldeyri, sem hefur orðið til af erlendum eignum eftir 12. mars 2012, verði greitt til kröfuhafa í erlendum gjaldeyri.

Kaupþing
Kaupþing
© AFP (AFP)