Hópur kröfuhafa Glitnis, Kaupþings og gamla Landsbankans (LBI) hafa allir lagt til ákveðin skilyrði sem slitabú föllnu bankanna myndu þurfa að undirgangast til þess að mega greiða úr búunum til kröfuhafa. Í tillögum kröfuhafanna til framkvæmdahóps um afnám hafta og ráðgjafa Íslands eru þessi skilyrði kölluð stöðugleikaskilyrði (e. stability conditions). Athygli vekur að tillögur þessara hópa kröfuhafa eru að nokkru leyti ólíkar.

Hópur kröfuhafa í gamla Landsbankanum leggur til að allar kröfur í slitabúið sem eru í íslenskum krónum og auk þess tilteknar kröfur slitabúsins á innlenda aðila verði gefnar íslenska ríkinu, að undanskildum 3 milljarða króna varasjóði. Þetta myndi mynda stöðugleikaframlag (e. stability contribution) slitabúsins til ríkisins. Nokkrar mikilvægar innlendar eignir slitabúsins á borð við skuldabréf til nýja Landsbankans, Avens bréfið og bréf Landsvirkjunar yrðu ekki færðar ríkinu.

Hópur kröfuhafa í Kaupþingi leggur til stöðugleikaframlag sem felast myndi í 84 milljarða króna skuldabréfi, framsali eigna að nafnvirði 115 milljarða króna og framsal ákveðinna ágreiningskrafna í íslenskum krónum. 84 milljarða skuldabréfið myndi vera tryggt með veði í skuldabréfum sem Arion banki myndi gefa út til Kaupþings. Hið veðsetta skuldabréf yrði gefið út í evrum.

Hópur kröfuhafa í Glitni leggur til stöðugleikaframlag í fjórum hlutum. Í fyrsta lagi yrðu 58 milljarðar króna, sem nú mynda reiðufé í slitabúinu, greiddir til íslenska ríkisins. Í öðru lagi yrðu ákveðnar eignir slitabúsins, kröfur gegn íslenskum aðilum upp á samtals 59 milljarða, gefnar ríkinu. Í þriðja lagi yrði gefið út 119 milljarða króna skuldabréf til ríkisins og í fjórða lagi yrðu innheimtur af ákveðnum kröfum, metnar á 14 milljarða króna, gefnar ríkinu.

Leiðrétting: Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að samkvæmt tillögum kröfuhafa gamla Landsbankans yrðu skuldabréf til nýja Landsbankans, Avens bréfið og bréf Landsvirkjunar færðar ríkinu. Hið rétta er að tillögurnar gera ráð fyrir því að þær verði ekki færðar ríkinu. Þetta hefur nú verið leiðrétt.