Skiptastjóri þrotabús Milestone hefur selt banka sem félagið átti í Makedóníu, lyfjakeðju í Austur-Evrópu, lóðir í Tyrklandi og ýmsar aðrar eignir. Hann ætlar að mæla með því á næsta skiptafundi félagsins 3. júní næstkomandi að kröfuhafar þrotabúsins fái það sem til er nú á bók í þrotabúinu eftir sölu eigna eða í kringum 400 milljónir króna. Þetta jafngildir um 0,5% af samþykktum kröfum í þrotabúið. Heildarkröfur í þrotabú Milestone nema tæpum 80 milljörðum króna.

Slitastjórn Glitnis á rúman helming krafna á Milestone eða upp á rúma 40 milljarða króna og fær samkvæmt tillögu skiptastjórans í kringum 200 milljónir króna. Aðrir kröfuhafar eru Straumur-Burðarás, Moderna Finance í Svíþjóð, sem var í eigu Milestone, og Sjóvá.

Á þessu ári eru fimm ár liðin síðan Milestone var úrskurðað gjaldþrota. Eftir því sem næst verður komist standa enn nokkur mál út af svo hægt verði að ljúka skiptum. Helstu málinu lúta að riftun á ýmsum gjörningum fyrir hrun og tengjast fyrrverandi aðaleigendum Milestone, bræðrunum Karli Wernerssyni og Steingrími. Búist er við því að niðurstaða fáist í málin í héraði í haust og eftir um ár í þeim málum sem fara fyrir Hæstarétt.