„Kröfuhafar sem komið er fram við með ósanngjörnum hætti á alþjóðlegum vettvangi ganga ekki bara í burtu,“ segir Timothy Coleman, ráðgjafi kröfuhafa Kaupþings, í samtali við Bloomberg News .

Greint hefur verið frá því að uppi séu hugmyndir um að leggja 35% útgönguskatt á allar greiðslur yfir landamæri í tillögum um losun fjármagnshafta. Gæti skatturinn svo lækkað í þrepum eftir því sem tíminn líður, t.d. mánaðarlega, þangað til hann hverfur með öllu.

Coleman varar stjórnvöld við því að beita aðgerðum eins og útgönguskatti á eignir slitabúa föllnu bankanna. Segir hann kröfuhafa munu nota hvern einasta hluta hvers einasta lagakerfis sem er þeim aðgengilegur til þess að tryggja að komið sé fram við þá með viðeigandi og sanngjörnum hætti.