Verði nauðasamningar föllnu bankanna samþykktir þá verður auðveldara fyrir kröfuhafa þeirra að fara á svig við gjaldeyrishöftin eftir að þeir eru komnir með eignarhald á bönkunum. Þetta segir í bréfi sem þingmaðurinn Guðlaugur Þ. Þórðarson hefur sent Helga Hjörvari, formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Í bréfinu kemur m.a. fram að hann og flokksbróðir hans, Pétur Blöndal, óski eftir því að nefndin fundi eins fljótt og auðið er um stöðu nauðasamninga föllnu bankanna. Fundað var um málið á síðustu dögum þingsins fyrir jól en ekki tókst að klára málið.

Í bréfinu segir að þeir Pétur hafi skilið málið sem svo að Seðlabankinn vilji ekki ganga frá nauðasamningum að svo stöddu. Í bréfinu segir jafnframt að öllu óbreyttu muni meginhluti erlends gjaldeyrisvaraforðasjóðs landsmanna verða greiddur út ef að nauðasamningum verði. Sjóðurinn er að stærstum hluta fjármagnaður af lánum með ríkisábyrgð.

„Seðlabankinn hefur úrslitavald í þessu máli en það er nauðsynlegt að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins sinni laga- og eftirlitshlutverki sínu í þessu gríðarlega stóra máli. Ef gerð verða mistök, verða þau ekki aftur tekin og munu birtast í mjög alvarlegum afleiðingum fyrir íslensk heimili,“ skrifar Guðlaugur í bréfinu.