Hluthafar og kröfuhafar fimm spænskra banka sem teknir hafa verið yfir af spænska ríkinu munu þurfa að taka á sig umtalsverðan niðurskurð eigna, mismunandi þó eftir því hvaða bankar eiga í hlut, að því er segir í frétt Wall Street Journal.

Endurskipulagning bankakerfisins er eitt af forgangsverkefnum spænsku ríkisstjórnarinnar til að snúa við þróun efnahagsmála. Aðgangur að lánsfé fer minnkandi og atvinnuleysi er komið yfir 26%.

Stærsti bankinn af þessum fimm, Bankia, var sá eini sem var með hlutabréf sín skráð á markað og munu hluthafar í honum missa nær allt sitt. Nafnvirði hvers hlutar í bankanum verður lækkað úr tveimur evrum í eitt evrusent. Almennir skuldabréfaeigendur munu missa um 30% af sínum kröfum. Til að endurfjármagna bankann verður 4,8 milljörðum evra í forgangshlutafé og víkjandi lánum breytt í venjulegt hlutafé og þá mun spænski bankabjörgunarsjóðurinn bæta við 10,7 milljörðum evra.

Forgangshlutafé í Catalunya Banc, Banco Gallego og NGC Banco verður lækkað um 43%-61% og svo breytt í almennt hlutafé. Í síðasta mánuði var greint frá því að forgangshlutafé í Banco de Valencia yrði lækkað um 90%.