Erlendir kröfuhafar eru viljugri en áður til að semja um uppgjör á kröfum sem þeir eiga í þrotabú föllnu bankanna. Þetta fullyrðir breska viðskiptablaðið Financial Times á vef sínum.

Financial Times fjallar um kosningarnar um síðustu helgi og bendir á að þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi lýst því yfir að semja þurfi við kröfuhafa með tilheyrandi afskriftum af þeirra hálfu, þeir þurfi jafnvel að gefa allt að 75% afslátt af kröfum sínum.

Blaðið hefur eftir heimildamanni tengdum kröfuhöfunum að fjármunir þeirra hafi verið fastir hér á landi síðastliðin fjögur ár og verði að semja um þær. Þá rifjar blaðið upp í umfjöllun sinni að margir í hópi kröfuhafa séu vogunarsjóðir og hrægammasjóðir sem keyptu skuldabréf föllnu bankanna á hrakvirði. Á hinn bóginn segir Financial Times varasamt að kröfuhafar verði þvingaðir til að færa kröfur sínar niður. Það geti haft neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu hér á landi í framtíðinni.