Af samtals 433,2 milljóna kröfum sem gerðar voru í þrotabú Tölvutek fengu kröfuhafar rétt tæplega 61 milljón króna upp í skuldirnar, þar af 100% upp í tæplega 5,6 milljóna króna búskröfur.

Jafnframt fengust 29,32% upp í veðkröfur, eða sem samsvarar 55,4 milljónum króna, svo samtals fengu búskröfu- og veðkröfuhafar rétt tæplega 61 milljón krónur út úr þrotabúi tölvuverslunarinnar. Eigendur forgangs-, almennra- og eftirstæðra krafna í félaginu fengi ekkert í sinn hlut úr þrotabúinu.

Viðskiptablaðið sagði frá í júní í fyrra að félaginu, sem stofnað var árið 2006, hefði reynst dýrt að flytja í stærri verslun í Hallarmúla 2 í Reykjavík sem gert var árið 2013, meðal annars vegna dýrrar leigu . Húsnæðið hýsir nú lagersölu NTC tískuverslananna.

Samkvæmt forsvarsmönnum félagsins tókst eigendum ekki að bjarga félaginu eftir taprekstur árið 2018, þó þeir hafi lagt því til fé í ársbyrjun 2019, eftir að ljóst var að lánsheimildir höfðu verið felldar niður.

Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 3. júlí síðastliðinn, en Bjarki Þór Sveinsson var skiptastjóri þrotabúsins sem fékk nafnið TT100 ehf., í kjölfar þess að vörumerkið var selt Origo sem opnaði nýja verslun undir nafni Tölvutek í Mörkinni í Reykjavík.