Áætlað er almennir kröfuhafar Glitnis hafi tapað 70 til 75% af upphaflegum lánveitingum sínum til bankans við fall hans. Stóran hluta af tapinu má rekja til setningar neyðarlaganna í október 2008 þegar innstæður voru gerðar að forgangskröfum á kostnað almennra krafna. Þetta kemur fram í athugasemd frá slitastjórn Glitnis í tilefni af fréttum undanfarið um að vogunarsjóðir eigi meira en 60% í Íslandsbanka og að þeir njóti meginhluta þeirrar aukningar sem orðið hefur á eignum bankans.

Í tilefni af fréttunum vill slitastjórn Glitnis árétta eftirfarandi:

„Með ákvörðun fjármálaeftirlitsins þann 14. október 2008 voru tilteknar eignir og skuldbindingar Glitnis hf. færðar yfir til Nýja Glitnis banka hf. ( nú Íslandsbanka hf.). Um var að ræða eignir þrotabús Glitnis sem áttu að renna til kröfuhafa bankans. Í uppgjöri á milli bankanna tveggja sem fram fór fyrir atbeina stjórnvalda varð niðurstaðan sú að Glitnir eignaðist 95% hlutafjár í Íslandsbanka hf. enda áttu kröfuhafar bankans þá hagsmuni sem fluttir voru yfir til hins nýja banka.

Við flutning eigna yfir í nýja bankann var að frumkvæði stjórnvalda beitt varfærnu mati til að tryggja stöðugleika í rekstri hans og farsæla enduruppbyggingu fjármálakerfisins. Hið varfærna mat myndaði hins vegar stórfellt tap hjá Glitni sem að einhverju leyti er nú að koma til baka við endurmat á eignum Íslandsbanka. Eignauppfærsla hjá Íslandsbanka er því réttmæt eign kröfuhafa Glitnis í samræmi við hlutafjáreign þeirra í bankanum.

Rétt er að fram komi að kröfuhafar í Glitni er stór hópur alþjóðlegra og íslenskra fjárfesta, þar með taldir eru einstaklingar, lífeyrissjóðir, fyrirtæki og fjármálastofnanir. Um 70% af kröfum sem lýst var í bú Glitnis eru enn í eigu upphaflegra kröfuhafa. Um 30% krafna hafa skipt um hendur þar á meðal til alþjóðlegra banka og áður nefndra vogunarsjóða. Ekki er hægt með nokkurri vissu að áætla hvaða kröfur skiptu um hendur eftir fall bankans þar til kröfulýsingarfresti lauk, þar sem stór hluta skulda hans voru skuldabréf á markaði.

Það er einnig rétt að undirstrika að kröfuhafarnir hafa enga formlega aðkomu að stjórn Glitnis og þaðan af síður hafa þeir aðkomu að stjórn Íslandsbanka. Fjármáleftirlitið setti ströng skilyrði fyrir eignarhlut Glitnis í Íslandsbanka. Sérstakt eignarhaldsfélag, ISB Holding, fer með eignarhlutinn en í stjórn þess félags eru þrír aðilar og skulu tveir þeirra og þar með formaður stjórnar vera óháðir Glitni og kröfuhöfum. Í stjórn Íslandsbanka eru sjö stjórnarmenn einn frá ríkinu, einn tilnefndur af Glitni en fimm eru óháðir Glitni og kröfuhöfum. Ýmis önnur skilyrði voru sett af stjórnvöldum til að tryggja enn frekar sjálfstæði Íslandsbanka og aðskilnað frá Glitni og kröfuhöfum.“