Í síðustu viku var haldinn kröfuhafafundur VBS eignasafns ehf. sem áður hét VBS fjárfestingabanki hf. VBS var umsvifamikill í fjármálageiranum fyrir hrun en var tekinn í slitameðferð þann 9. apríl 2010.

Á kröfuhafafundinum kom meðal annars fram að riftunar- og skaðabótamálum á vegum slitabúsins sé lokið. Voru höfðuð tíu mál og unnust þau öll, en stærstu málin voru gegn Tryggingamiðstöðinni og slitastjórn Landsbankans.

„Þær endurheimtur á verðmætum sem fengust með þeim málsóknum eru undirstaðan í eignum búsins,“ segir Hróbjartur Jónatansson í slitanefnd VBS við Viðskiptablaðið.

Þar að auki var kröfum riftaþola bætt inn í kröfuskrána og þarf nú að vinna í þeim málum. Búið sé nú hins vegar komið með töluvert af lausu fé sem það vill greiða til sinna kröfuhafa. Ekki er hins vegar mögulegt að greiða almennum kröfuhöfum á meðan búið er enn í slitameðferð. Búið sé að greiða samþykktar forgangskröfur þó ágreiningur sé um hvort tilteknar kröfur séu forgangskröfur eður ei.

Mæla gegn nauðasamningum

Slitastjórnin leggur til að félagið verði sett í gjaldþrot frekar en að kröfur verði greiddar á grundvelli nauðarsamninga.

„Það liggur fyrir að félagið mun ekki hafa neina starfsemi eftir að slitameðferð er lokið. Við í slitastjórn greindum frá þeirri afstöðu okkar að við teldum eðlilegt að setja félagið bara í þrot eða óska eftir gjaldþrotaskiptum núna í sumar. Í framhaldi af því verður hægt að greiða út mest af lausum peningum félagsins,“ segir Hróbjartur.

Hægt verði að ljúka málinu í árslok eða byrjun næsta árs, það fari eftir því hve lengi dómstóll er að taka afstöðu til krafnanna sem eftir eru og ágreiningur er um.

Lélegt eignasafn

Hróbjartur segir að eignasafn slitabúsins hafi ekki verið merkilegt fyrst um sinn en að kröfuhafar fái nú meira fyrir sinn snúð eftir að áðurnefnd riftunar- og skaðabótamál unnust.

„Við getum orðað það þannig að eignasafnið var mjög lélegt. Lánasafnið var illa tryggt og lántakendur voru yfirleitt einhvers konar félög sem voru með lélega fjárhagsstöðu. Sú greiðsla sem er núna fyrirsjáanleg er miklu hlutfallslega hærri en var fyrirséð þegar menn voru búnir að meta lánasafnið sem slíkt. Ég reikna með því að það hafi allir verið sæmilega ánægðir með það að slitastjórnin hafi farið í þessi mál,“ segir Hróbjartur.

Málin hafi snúist um að fá endurgreiðslur á stórum fjárhæðum sem greiddar voru með vafasömum hætti og urðu í raun til þess að kröfuhöfum var mismunað.

Tóku eignir á ólögmætan máta

„Þetta voru semsagt stórar fjárhæðir sem voru greiddar með óvenjulegum greiðslueyri á þeim tíma sem félagið var í raun ógjaldfært. Í því fólst mismunun á kröfuhöfum, sumir fengu og aðrir fengu ekki,“ segir Hróbjartur.

„Það sem að gerðist í þessu var að við snerum ofan af ákveðnum veðsetningum á kröfusafnið, sem leiddi til þess að þær eignir komu þá jafnt til allra. Að öðru leyti snerum við við ákveðnum greiðslum sem voru gerðar til tiltekinna kröfuhafa með óvenjulegum greiðslueyri.“

„Þeir tóku þá til sín eignir og skuldabréf og fleira sem ekki er venjulegt að nota í greiðslu skuldbindinga, og á þeim tíma sem fyrirsjáandi var að félagið átti ekki fyrir skuldum. Þessum aðgerðum var í raun og veru snúið til baka og viðkomandi viðtakendur fjármunanna eða verðmætanna var gert að greiða þetta til baka í peningum inn í búið. Þeir peningar eru semsagt meginstaðan í eignum búsins í dag.“