Kröfuhafar gamla Landsbankans gerðu þá kröfu að sett yrði inn sérstakt ákvæði í samkomulag um endurreisn nýja Landsbankans, að þrotabúið þyrfti ekki að bera neinn fjárhagslegan skaða af tilteknum stjórnvaldsaðgerðum sem myndu rýra verðmæti lánasafns bankans.

Í frétt Morgunblaðsins í dag segir að að öðrum kosti sé talið ólíklegt að kröfuhafar hefðu fallist á það fyrirkomulag að gefið yrði út skilyrt skuldabréf hinn 31. mars næstkomandi, sem getur orðið 92 milljarðar, í skiptum fyrir 18,7% hlutafjáreign þrotabúsins í Landsbankanum.

Heimildir Morgunblaðsins herma að það hafi fyrst og fremst verið áhyggjur kröfuhafa í tengslum við áform ríkisstjórnarinnar um uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem skiptu máli í þessum efnum. Á meðal undirliggjandi eigna skilyrta bréfsins eru lán Landsbankans til sjávarútvegsfyrirtækja.