Stór hluti krafna er á höndum fárra kröfuhafa sem flestir eru erlendir vogunarsjóðir. Margir líta á fjárfestinguna til lengri tíma. Þeir vilja hafa meira að segja um ákvarðanirskilanefndanna, en til þess þarf lagabreytingar.

Hluti kröfuhafa gömlu bankanna vill aukið vægi í ákvörðunartöku skilanefndanna. Kröfuhafarnir eiga í dag 87% í Arion banka, 95% í Glitni og tæp 20% í Landsbankanum í gegnum eignarhlut sinn í gömlu bönkunum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vill sá hluti kröfuhafa sem um ræðir breytingar á íslenskum lagaákvæðum, sér í lagi þeim er snúa að jafnræði kröfuhafa. Nú sé það túlkað of bókstaflega.

Kröfuhafarnir komu flestir að gömlu bönkunum eftir bankahrun og eru þeir flestir erlendir vogunarsjóðir. Þeir sjá hag sinn fyrst og fremst í að endurheimtur og rekstur bankanna verði betri en talið var við hrun. Kröfuhafar bankanna eru fjölmargir, til dæmis eru kröfuhafar Kaupþings um 30 þúsund. Hins vegar er stór hluti krafna á höndum fárra og líta þeir eign sína öðrum augum en þeir kröfuhafar sem eignuðust kröfur við fall bankanna. Á bilinu 20-40% núverandi kröfuhafa bankanna keyptu kröfurnar á eftirmarkaði.

Vilja lagabreytingar

Íslensk gjaldþrotalög segja að gæta skuli jafnræðis meðal kröfuhafa. Því hafa allir kröfuhafar rétt á sömu upplýsingum. Þrátt fyrir að upplýsingagjöf skilanefnda til kröfuhafa sé talin nokkuð góð miðað við önnur þrotabú þá telur hluti kröfuhafa að henni sé ábótavant. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fer sá hluti kröfuhafa sem um ræðir ekki fram á stórvægilegar breytingar á lögum. Þeir vilja koma að rekstrinum til langs tíma og líta svo á að þeir ættu að fá frekari aðgang að upplýsingum og meira vald en þeir sem ekki líta á kröfur sínar með þessum hætti.

Jafnræðisreglan, og túlkun á henni, kemur í veg fyrir það. Samkvæmt heimildum blaðsins hafa kröfuhafar beint óánægjuröddum sínum til skilanefndanna en undirtektir verið dræmar. Því vilja þeir reyna að að ná fram lagabreytingum til að rétta hlut sinn. Innan skilanefndanna er þó talið að slíkt sé afar erfitt, bæði af verklegum og lagalegum ástæðum. Nú þegar séu veittar upplýsingar umfram það sem lög kveða á um. Sumar trúnaðarupplýsingar sé ekki hægt að veita kröfuhöfum því hagsmunir þeirra geta legið þvert á hag þrotabúsins. Má þar nefna upplýsingar er varða afleiðuviðskipti, þar sem kröfuhafar geta átt hag sinn þvert á hag bankans.

Í ljósi þess að skilanefndir bankanna starfa eftir lögum sem gilda almennt um þrotabú þurfa breytingar á þeim að vera almennar. Þær þurfa því að geta náð yfir öll þrotabú, ekki einungis þrotabú bankanna.

-Nánar í Viðskiptablaðinu