Slitastjórn Kaupþings hefur hafið undirbúning við að selja hlut þrotabús Kaupþings í Arion banka. Nú er unnið að því að ráða utanaðkomandi ráðgjafa sem á m.a. að leggja drög að hugsanlegri sölu á bankanum. Áhugasamir fjárfestar hafa þegar lýst yfir áhuga á að kaupa bankann. Kröfuhafar Kaupþings eiga 87% hlut í Arion banka á móti ríkinu. Bankasýsla ríkisins fer með 13% hlut ríkisins í Arion banka. Hlutur kröfuhafa er metinn á 116 milljarða króna í bókum kröfuhafa.

Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, sem sæti á í slitastjórn Kaupþings, að stutt sé síðan ákveðið hafi verið að leggja grunninn að hugsanlegri sölu á hlut kröfuhafa í bankanum.