Til greina kemur að þeir fjárfestar sem keypt hafa grísk skuldabréf fái meira fyrir sinn snúð í takt við bættan hagvöxt á Grikklandi. Viðræður standa enn yfir um skuldavanda Grikkja og þær skuldir sem stjórnvöld þurfa að standa skil á eftir mánuð.

Í viðræðum grískra stjórnvalda, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Evrópusambandsins og fleiri sem koma að skuldavanda Grikkja um helgina síðustu kom fram að lánardrottnar Grikkja getið tapað að lágmarki 70% af eign sinni í grískum skuldabréfum við frekari niðurfellingu skulda Grikklands.

Þá voru jafnframt lögð fram drög að því að höfuðstóll grískra skuldabréfa lækki um helming, vextir fari niður í 3,5-4% og greiðslutimi lengdur í 30 ár. Það getur leitt af sér meira tap fyrir fjárfesta en upphaflega var gert ráð fyrir.

Margir af stærstu bönkum Evrópu hafa keypt grísk skuldabréf og viðbúið að þeir tapi hærri fjárhæðum en áður var gert ráð fyrir.

Bloomberg-fréttastofan hefur eftir heimildamönnum sínum í dag að innsigli fjárfestarnir samkomulag í þessa átt þá geti þeir fengið tap sitt bætt að hluta komist hagvöxtur í Grikklandi á skrið.