Reykjanesbær hefur gefið lánadrottnum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar (EFF) frest þangað til á morgun til að samþykkja afskriftir skulda. Gangi þeir ekki að þeim kjörum þá verði bærinn að óska eftir því að fjárhagsstjórn verði skipuð yfir bænum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Greint er frá því að sáttatillaga bæjarins feli í sér að 6,8 milljarðar verði afskrifaðar af skuldum Reykjanesbæjar, en stærsti hlutinn mun vera af skuld EFF. Hingað til hafa lánadrottnar þó einungis verið tilbúnir að afskrifa 5,1 milljarð.

Skuldir Reykjanesbæjar nema samtals um 40 milljörðum króna en skuldir EFF tæplega 8 milljörðum.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um fjárhagsvanda Reykjanesbæjar en alvarleg staða er í fjármálum bæjarins. Kröfuhafar hafa nú samþykkt fjögur kyrrstöðutímabil á skuldum bæjarins en um miðjan október gat Reykjaneshöfn ekki greitt af skuldabréfi sem var á gjalddaga.