Kröfukaupahópur sá sem auglýsti eftir kröfum á nokkur íslensk félög með auglýsingu í síðustu viku íhugar nú að kaupa kröfur á fleiri félög.

Í samtali blaðamanns Viðskiptablaðsins við talsmann hópsins, sem ekki vildi koma fram undir nafni, kom fram að mjög góð viðbrögð hafa verið við tilboði hópsins. Mismunandi er hvað mikið er greitt fyrir kröfur. Fyrir kröfur með gjalddaga eftir ár er greitt 12% af kröfunni en fyrir kröfur með stysta gjalddaga er greitt 45% af kröfunni. "Peter Green bauð 5% þannig að við erum að bjóða betur. Við höfum fengið góð viðbrögð við þessu," sagði talsmaðurinn.

Í upphafi var tilboðið bundið við fyrirtæki tengd Baugi og Existu en að sögn talsmannsins er nú talinn grundvöllur fyrir því að kaupa kröfur á fleiri félög enda vanti marga fjármuni fyrr en ætlað var. Að hópnum standa fimm fjárfestar. Talsmaðurinn sagðist ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu fyrir hve háar upphæðir kröfur hefðu verið keyptar en sagði að það væri "talsvert".

Netfang hópsins er [email protected]