Landsréttur hefur hafnað kröfum Eimskipafélags Íslands um að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á ætluðu ólögmætu samráði fyrirtækisins við Samskip. Hafði Eimskip krafist þess að gögn sem Samkeppniseftirlitið lagði hald á í húsleit hjá félaginu í lok árs 2013 yrði skilað og afritum eytt.

Viðskiptablaðið sagði frá rannsókninni og húsleitunum á sínum tíma , en úrskurðurinn kemur sama dag og ársuppgjör félagsins sínir lakari afkomu á síðasta ári en fyrra ár.

Fyrirtækið hafði krafist þess að fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að rannsóknin væri ólögmæt, og henni því hætt, þann 1. júlí 2019, sem og að aflétt yrði haldi sem lagt hefði verið á gögn fyrirtækisins frá húsleitinni 10. desember 2013 og svo aftur annarri sem framkvæmd var 4. júní 2014.

Til stuðnings kröfum sínum hefur Eimskip byggt m.a. á því að rannsókn málsins hafi tekið óeðlilega langan tíma, að Samkeppniseftirlitið hafi blekkt dómstóla, að haldlagning gagna í húsleitunum hafi verið ólögmæt og að starfsmenn eftirlitsins séu vanhæfir þar sem þeir hafi tekið þátt í rannsókn lögreglu á þætti stjórnenda Eimskips í hinu ætlaða samráði.

Einnig hafi Samkeppniseftirlitið brotið gegn mannréttindum Eimskips, m.a. þar sem eftirlitið hefði haldið áfram rannsókn málsins eftir að hafa áður fellt hana niður. Samkeppniseftirlitið hefur fyrir dómstólum rökstudd að ekkert sé hæft í þessum málatilbúnaði Eimskips.

Landsréttur hefur nú staðfest úrskurð Héraðsdóm Reykjavíkur, en þar kemur fram að gögnin beri ekki með sér að rannsókn SKE á ætluðu samráði Eimskipafélagsis og Samskipa hafi verið hætt, né að húsleitirnar hafi verið ólögmætar.

Samkeppniseftirlitið segir þvert á móti í tilkynningu á vef sínum að rannsóknin sé vel á veg komin, eftir þessi sjö ár, en hún beinist að því hvort skipafélögin hafi haft með sér ólögmætt samráð á mörkuðum fyrir sjóflutninga, flutningsmiðlun og landflutninga.

Hér má sjá frekari fréttir um málið: