Alþjóðlegur gerðardómur hafnar öllum kröfum Kínverja til hafsvæðis í Suður Kínahafi í úrskurði sem gerður var rétt í þessu.

Enginn lagalegur grundvöllur fyrir kröfum

Segir í úrskurði dómsins að Kína hafi engan lagalegan grundvöll til að krefjast mest alls hafsvæðisins í Suður Kínahafi. Jafnframt segir að þeir hafi ýtt undir deilur nágrannalandanna með því að byggja upp gervieyjar og landuppbyggingu á kóralrifum sem hafi valdið náttúruspjöllum.

Kína viðurkennir ekki lögsögu dómstólsins né úrskurðinn sem slíkan segir kínverska ríkisfréttastöðin Xinhua. Kínverska ríkið hefur haldið því fram lengi að dómstóllinn hafi enga lögsögu en úrskurður hans er bindandi samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem bæði Filippseyjar og Kína hafa skrifað undir. En engin ákvæði til að framfylgja úrskurðinum eru til staðar.

Bandarískur floti á svæðinu

Dómstóllinn sem samanstendur af fimm dómurum úrskurðaði samhljóða að Kína hefði brotið skuldbindingar sínar um að ýfa ekki upp deilurnar meðan á samningaumleitunum stæði.

Segir dómstóllinn jafnframt að kínversk stjórnvöld hafi truflað olíuleit Filippseyinga á svæðinu, reynt að stöðva veiðar skipa frá Filippseyjum, og ekki tekist að hindra kínverska sjómenn í að veiða í landhelgi Filippseyja.

Stjórnvöld í Filippseyjum fögnuðu úrskurðinum og talsmaður bandarísra stjórnvalda, John Kirby, sagði að Bandaríkin ætluðust til þess að bæði ríkin myndu hlýta úrskurði dómstólsins, sem þeir kalla mikilvægt framlag í því sameiginlega markmiði að leysa deilur um Suður Kínahaf friðsamlega. Bandaríkin styðja kröfur Filippseyinga og eru bandarískar flotaherdeildir á svæðinu.