Eldum rétt ehf. auk þrotabús Manna í vinnu ehf. og fyrrverrandi stjórnenda þess félags höfðu betur í máli sem fjórir fyrrverandi starfsmenn starfsmannaleigunnar höfðu höfðað til innheimtu vangoldinna launa. Kröfum á hendur félögunum tveimur var vísað frá dómi en stjórnendurnir þrír voru sýknaðir.

Í október 2018 var sagt frá því í fréttaskýringaþættinum Kveik að fjöldi Rúmena væri í hálfgerðri nauðungarvinnu hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu. Málið var höfðað um hálfu ári síðar af hálfu starfsmannanna fjögurra. Kröfur fjórmenninganna hljóðuðu upp á um 200 þúsund krónur til hvers og eins vegna frádráttar frá launum. Var það meðal annars vegna leigu, ferðakostnaðar, flugs, símkorta og líkamsræktarkorts. Þá krafðist hver starfsmaður um sig 1.500 þúsund króna í miskabætur.

Starfsmannaleigan Menn í vinnu varð gjaldþrota í september 2019 og lauk skiptum tæplega ári síðar. Stefnendur málsins lýstu kröfum í þrotabúið, miskabótakrafan var þar ekki með, en afstaða skiptastjóra til þeirra lá ekki fyrir dóminum. Í niðurstöðu dómsins sagði að eftir að skiptum lauk yrði kröfum ekki komið fram gagnvart félaginu. Kröfu á hendur því var því vísað frá. Í kjölfarið þótti ekki annað hægt en að vísa kröfu gagnvart Eldum rétt frá dómi einnig samkvæmt reglum um keðjuábyrgð vegna starfsmannaleiga.

Hagstæðara Rúmenunum

Meðal málsástæðna Rúmenanna var að þeir hefðu ekki fengið laun greidd á réttum tíma. Því hafnaði dómurinn alfarið. „Samkvæmt gögnum málsins voru gefnir út launaseðlar þann 15. janúar 2019 vegna tímabilsins 1. til 15. janúar 2019 og 18 febrúar vegna tímabilsins 16. til 31. janúar 201. Þetta fyrirkomulag er hagstæðara stefnendum en ráðningarsamningurinn gerir ráð fyrir,“ segir í niðurstöðukafla dómsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .