Skiptum er lokið á einkahlutafélaginu Varnagli ehf. Lýstar kröfur í þrotabúið námu rétt rúmum einum milljarði króna. Félagið var stofnað árið 2007 í kringum kauprétt Tryggva Þórs Herbertssonar, fyrrverandi þingmanns og forstjóra Askar Capital, á hlutabréfum í Askar Capital.

Tryggvi var skráður eigandi að félaginu öllu í lok árs 2007. Skuldir félagsins námu í lok ársins 300 milljónum króna og var eigið fé þess neikvætt um rúmar 70 milljónir. Tryggvi hefur ítrekað bent á að hann hafi ekki tengst félaginu nema í skamman tíma eða þegar hann var forstjóri Askar Capital frá 2006. Hann sagði í samtali við Viðskiptablaðið að með kaupréttinum hafi verið tengdir saman hagsmunir og hann ekki tekið á sig neina ábyrgð nema standa sig í starfi. Þegar hann gerðist efnahagsráðgjafi Geirs H. Haarde sumarið 2008 hafi verið gengið frá félaginu og kaupréttinum.

„Ég vildi heldur ekki vera tengdur inn í neitt félag og réttindi þar vegna stöðu minnar sem efnahagsráðgjafi. Eftir það veit ég ekki neitt um þetta félag nema að ég skuldaði því pening sem ég fékk að láni í upphafi sem ég gekk frá í fyrra,“ sagði Tryggvi í samtali við Viðskiptablaðið í fyrrahaust. Þar lagði hann áherslu á að hann hafi gengið frá öllu sínu í júlí 2008. Eftir það hafi félagið ekki verð á neinn hátt á hans ábyrgð.

Seldi félagið ári eftir stofnun

Tryggvi seldi félagið frá sér ásamt öllum eignum árið 2008. Viðskiptablaðið greindi frá því í október í fyrra að félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í umfjöllun blaðsins sagði að eigið fé félagsins var í lok árs 2010 neikvætt um rúmar 800 milljónir króna. Eigendaskipti höfðu þá átt sér stað en í lok árs 2010 var það komið í eigu Eignarhaldsfélagsins Hrímbaks ehfs, sem var í eigu félaga tengd Guðmundi Ólasyni, fyrrverandi forstjóra Milestone. Þangað var félagið selt frá Rákungi ehf, sem keypti félagið af Tryggva árið 2008.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum á þrotabúinu lauk 24. júní síðastliðinn. Engar eignir fundust í búinu upp í kröfur.