Lýstar kröfur í þrotabú Mótormax voru upp á ríflega einn milljarð króna. Engar forgangskröfur voru í þrotabúið en að sögn Þorsteins Einarssonar skiptastjóra voru laun greidd á meðan unnið var að sölu eigna í búinu.

Auk þess rak hann búið áfram eftir að það var komið í þrot til þess að koma eignum í verð. Engar kröfur hafa komið fram um riftanir á gerningum en að sögn Þorsteins fer nú fram ýtarleg endurskoðun á bókhaldi félagsins að ósk kröfuhafa.

Niðurstaða þeirrar rannsóknar ætti að liggja fyrir að nokkrum vikum liðnum. Umfangsmikil sala fór fram á vörum Mótormax rétt fyrir gjaldþrot og eftir, og hefur komið fram óánægja með hvernig að því var staðið.