Engar eignir fundust upp í rúmlega 161,3 milljarða króna kröfur félagsins Þrakía ehf. Félagið var í eigu athafnamannsins Sigurðar H. Ólasonar. Það var úrskurðar gjaldþrota 14. mars árið 2012 og lauk skiptum 20. febrúar síðastliðinn.

Þetta gjaldþrot og kröfurnar bætast við tæplega 1,7 milljarða krófur í tvö þrotabú félaga sem voru í eigu Sigurðar. Það voru félögin Sola Capital og Greipt í stein. Þrakía átti það sammerkt með hinum félögunum tveimur að halda utan um eignarhluti Sigurðar í fasteignum og framkvæmdum þeim tengdum.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um félög Sigurðar. Fyrr í mánuðinum var talið upp að Sola Capital átti fjölda fasteigna, m.a. við Bakkabraut, Grettisgötu, Laugaveg, Lækjargötu og Suðurgötu.

Athafnamennirnir Magnús Jónatansson og Ólafur Garðarsson stofnuðu Þrakíu árið 2006 og eignaðist Sigurður það árið 2008. Síðasta ársreikningur félagsins var birtur vegna uppgjörsársins 2007. Þá tapaði félagið 13,4 milljónum króna. Eignir námu í lok ársins 538 milljónum króna og skuldir 551 milljón. Eigið fé Þrakíu var neikvætt um 13 milljónir.