Rétt rúmar 5,5 milljónir króna fengust upp í kröfur í þrotabú Árdegis ehf. Þetta jafngildir 30,78% af forgangskröfum en aðeins 0,1% af lýstum kröfum.

Árdegi var umsvifamikið í verslanarekstri um nokkurra áraskeið. Félagið átti m.a. Skífuna, verslanirnar Noa Noa og Next auk Sony Center og BT-verslananna. Þá keypti Árdegi dönsku raftækjaverslunina Merlin í Danmörku með Baugi Group og fjárfestingarfélaginu Milestone árið 2005. Árdegi keypti svo hlut Baugs tveimur árum síðar. Reksturinn lenti í erfiðleikum um svipað leyti og tók að þrengja að á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum árið 2008. Merlin fór í greiðslustöðvun í október árið 2008, verslunum BT lokað og var Árdegi úrskurðað gjaldþrota í nóvember sama ár.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum á þrotabúi Árdegis hafi lokið 13. desember síðastliðinn. Lýstar kröfur námu rétt rúmum 4,1 milljarði króna. Eins og áður sagði fengu 5.527.161 króna upp í forgangskröfur eða sem nemur 30,78%.