Engar eignir fundust í þrotabúi verktakafyrirtækisins Jarðvéla upp í næstum tveggja milljarða króna kröfur. Fyrirtækið vann að tvöföldun Reykjanesbrautar á sínum tíma en gaf frá sér verkið nokkru fyrir áramótin 2007 vegna rekstrarerfiðleika. Erlendum starfsmönnum hafði þá gengið erfiðlega að fá greidd laun. Morgunblaðið sagði um það leyti marga starfsmenn fyrirtækisins farna úr landi. Á endanum var verkið boðið út að nýju.

Verktakafyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. febrúar 2008 og var Lárentsínus Kristjánsson, sem var um tíma formaður skilanefndar Landsbankans, skipaður skiptastjóri yfir þrotabúinu.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að heildarfjárhæð lýstra krafna nam rúmum 1,9 milljörðum króna. Þar af námu lýstar forgangskröfur rétt tæpum 280 milljónum króna. Upp í veðkröfur fengust greiddar 90 milljónir króna. Ekkert fékkst upp í aðrar kröfur.