Útistandandi kröfur í þrotabú Kaupþings hafa lækkað um tæplega 1.600 milljarða frá byrjun árs 2011.

Heildarfjárhæð á kröfum sem lýst var í bú Kaupþings fyrir kröfulýsingarfrest 30. desember 2009 nam 7.316 milljörðum króna. Kröfurnar voru 28.167 talsins.

Frá upphafi árs 2011 til 9. apríl 2012 hafa útistandandi forgangskröfur lækkað um 328 milljarða króna og útistandandi almennar kröfur lækkað um 1.271 milljarða króna. Ástæður þessarar lækkunar má rekja til úrslausna ágreiningsmála, afturkallana krafna frá kröfuhöfum og hækkun á endanlega höfuðum kröfum slitastjórnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá slitastjórn Kaupþings.

Þá hafa í heild kröfur að upphæð 3.542 milljarða króna verið dregnar til baka af kröfuhöfum eða þeim endanlega hafnað af slitastjórn án mótmæla. Kröfur að upphæð 2.858 milljarða króna hafa verið samþykktar af slitastjórn og þar af eru 2.784 milljarðar króna endanlega samþykktar.

Í tilkynningu slitastjórnar segir að stjórnin vænti þess að núverandi slitameðferð geti lokið á frekar skömmum tíma þó búast megi við að lausn einstakra deilumála taki lengri tíma.