Aðeins fengust rúmar 33,2 milljónir króna upp í 2.279 milljóna króna kröfur í þrotabú verktakafyrirtækisins Klæðningar. Þrotabúið var lýst gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur 14. apríl árið 2010 og heitir VSS ehf í dag. Skiptum á þrotabúinu lauk 17. október síðastliðinn.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að samkvæmt úthlutunargerð fengust 33,2 milljónir króna upp í forgangskröfur eða 62,55% þeirra. Ekkert fékkst greitt upp í veðkröfur, almennar kröfur eða eftirstæðar kröfur.

Eigendur Klæðningar skiluðu síðast ársreikningi árið 2008 fyrir rekstrarárið 2007. Fram kemur í ársreikningnum að tekjur árið 2007 námu 3,3 milljörðum króna og hagnaður 136 milljónum króna. Skuldir námu tæpum 584 milljónum króna. Þar af voru gengistryggð lán upp á tæpar 140 milljónir króna. Vorið 2009 tók Lýsing hátt í 40 vinnutæki af Klæðningu vegna fjárhagserfiðleika fyrirtækisins. Útséð var með reksturinn eftir það.