Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að í kröfugerðum VR og SGS kveði að hluta til við nýjan tón, gagnvart ríkinu. Að öðru leyti sé grundvallarkrafan á hendur atvinnurekendum sú sama og undanfarinn áratug. Hann kallar eftir sameiginlegu kostnaðarmati, eða að í þeim tilvikum sem það sé til, verði það birt.

Í viðtali Viðskiptablaðsins við Ragnar Þór Jónsson , formann VR er rætt um kröfur verkalýðsfélaganna um breytingar á vaxta-, verðtryggingar- og húsnæðiskerfum landsins sem Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir að hluta til geta tekið undir en að öðru leyti stangist þær á.

„Að krefjast tugprósenta launahækkana og vaxtalækkana á sama tíma er illsamrýmanlegt sjónarmið í nútímahagfræði enda hefur verið sýnt fram á að beint samband er á milli launahækkana og verðbólgu á Íslandi,“ segir Halldór Benjamín sem er sjálfur á móti því að takmarka val fólks við óverðtryggð lán líkt og talað er um í kröfugerðinni. Það kæmi mest niður á þeim sem minnst hafa á milli handanna þó hann segi það ekki atvinnurekenda að taka afstöðu til krafna um vaxtastefnu eða verðtryggingu.

„Annað sem búið er að slíta úr samhengi er skýrsla Gylfa Zoega um að það samrýmist langtímajafnvægi í þjóðarbúskapnum að hækka laun um 4% á ári, sem er þá samsett úr 2,5% verðbólgumarkmiðum og 1,5% langtímaframleiðniaukningu í samfélaginu. Hann segir nefnilega hvergi að þetta sé rýmið til launahækkana í dag.“

Halldór Benjamín hefur þegar setið fyrstu fundina með VR og Starfsgreinasambandinu um kröfugerðir og samningsáherslur fyrir komandi kjarasamningalotu. „Ég get ekki skilið kröfugerðirnar hjá Starfsgreinasambandinu öðruvísi en svo að það sem ríkið geri muni hafa áhrif á það hvernig kröfurnar gagnvart atvinnurekendum muni þróast. Það er alveg nýr vinkill í kjaraviðræðum,“ segir Halldór Benjamín.

„Í framhaldinu höfum við spurt tveggja spurninga, það er annars vegar hvort þau hafi kostnaðarmetið kröfugerðirnar og hins vegar hvernig sá kostnaður eigi að skiptast. Við þurfum auðvitað að fá kostnaðarmat til þess að átta okkur á heildarumfangi krafnanna. Fyrst fullyrt er að kröfurnar séu hófsamar og ábyrgar hljóta þau að hafa komist að þeirri niðurstöðu með því að máta kostnað við kröfurnar við rými mismunandi greina atvinnulífsins.“

Þrátt fyrir nýja forystu í verkalýðsfélögunum og breytta framsetningu er tal um áherslu á hækkun lægstu launa ekkert nýtt, að sögn Halldórs Benjamíns. „Krónutöluhækkun hefur verið meginstefið í kjarasamningum undanfarin 10 ár,“ segir Halldór Benjamín.

„Ef við greinum hvaða áhrif þessi áhersla á krónutöluhækkanir hefur haft frá ári til árs, undanfarinn áratug, hefur það alltaf leitt til þess að meira og minna allir hópar sem samið hafa í kjölfarið hafa umbreytt krónutöluhækkun lægstu taxta í prósentur og síðan hefur hlutfallshækkun lægstu launa brunað upp allan launastigann í samfélaginu.

Þannig að mín spurning er hvort SGS og verslunarmenn hafi tryggt stuðning eigin félagsmanna og annarra stéttarfélaga við stefnu þeirra um krónutöluhækkanir til allra einstaklinga sem hafa hærri laun en lægstu kauptaxtar, svo raunin verði ekki sú sama núna og hefur verið síðustu tíu ár. Það er mjög áleitin spurning sem ekki hefur fengist svar við.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .