Eining-Iðja hefur veitt Starfsgreinasambandi Íslands umboð til kjarasamningsgerðar. Segja má að þetta marki upphaf kjarabaráttu haustsins en þorri kjarasamninga losnar á seinni hluta þessa árs eða í byrjun þess næsta.

Kjaramál og kröfur eru nú rædd innan stéttarfélaga sem þó eru mislangt á veg komin í undirbúningi. Skortur á samvinnu og faglegri vinnu um efnahagslegar forsendur kjarasamninga, þróun launa og þróun kaupmáttar eru meðal þess sem aðilar vinnumarkaðarins vilja bæta úr. Kunnugir segja þennan skort hafa orðið til þess að kröfur í samningsviðræðum hafi gjarnan heldur byggst á brjóstviti en raunverulegu svigrúmi í efnahagslífinu.

Formenn ASÍ munu koma saman til fundar á föstudag og verður samráð um forsendur samninga þar til umræðu. Samstaða ríkir meðal aðila vinnumarkaðarins um að kanna kosti þess að taka höndum saman um undirbúning kjarasamninga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .