Ágreiningur er uppi milli Landsnets annars vegar og Sauðafells sf. hins vegar um fjárhæð eignarnámsbóta vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 á jörðinni Hvassahrauni í Vogum. Jörðin er öll í eigu Sauðafells. Matsnefnd eignarnámsbóta metur nú hve miklar eignarnámsbætur fyrir lagningu raflínu í lofti um landið skuli vera.

Raflínan mun liggja þvert yfir flugbrautir í Hvassahrauni, eins og þær eru settar fram í tillögum Rögnunefndar að framtíðar flugvallarstæði á jörðinni.

Nota skýrslu Rögnunefndar til rökstuðnings

Forsaga málsins er sú að Landsneti var veitt heimild til eignarnáms í Hvassahrauni af atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 24. febrúar 2014 í því skyni að leggja Suðurnesjalínu 2. Sauðafell, auk fleiri landeigenda á Reykjanesi, vildi ekki una þeirri ákvörðun og bar hana undir Héraðsdóm Reykjavíkur. Dómur féll í málinu í héraði á mánudag þar sem heimild til eignarnáms var staðfest.

Þórður Bogason hrl., lögmaður Landsnets, segir að Sauðafell geri kröfu fyrir matsnefnd eignarnámsbóta um 38 milljónir króna fyrir hvern hektara lands sem sé á áhrifasvæði raflínunnar, sem sé 12,6 hektarar. Samtals sé því um að ræða 480 milljónir í eignarnámsbætur. „Þeir gera kröfu um landverð sem gekk í úrskurði [matsnefndarinnar] vegna lóða í Hafnarfirði fyrir hrun,“ segir Þórður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .