Félagið utan um veitingastað Fjótt og gott í Umferðarmiðstöð BSÍ hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, en kröfurnar nema nokkuð skemmtilegri upphæð, eða rétt um 123,45 milljónum króna, eða nánar tiltekið 123.454.243 krónum. Engar eignir fundust í búinu upp í kröfurnar þó.

Fallna félagið, sem heitir nú Hofsbraut ehf., var úrskurðað í gjaldþrotaskipti 31. október 2018, en skiptum var lokið 7. janúar síðastliðinn. Elvar Arnar Unnsteinsson var skiptastjóri búsins en Eiríkur Guðlaugsson tilkynnti um skiptalokin.

Áður hét félagið Steinunn Bjarnadóttir ehf., skilaði ársreikningum í tvo áratugi, eða frá 1996 til 2016 samkvæmt skrá Skattsins, en félagið hélt utan um veitingaleyfi, og væntanlega rekstur Fljótt og gott í Umferðarmiðstöðinni.

Í viðtali við Morgunblaðið frá 2006 er rætt við Bjarna Geir Alfreðsson veitingamann á staðnum, þar á meðal við móður hans, Steinunni Bjarnadóttur leikkonu sem félagið hét eftir.