Í Facebook hópi Vesturbæinga hefur töluverð umræða skapast um ástand Ægisíðunnar. Umræðan hófst með því að Alda Sigmunds birti myndir af rusli og skólpi sem safnast hafði á Ægisíðuna.

Alda var ekki ánægð með hvernig umhorfs var og lét eftirfarandi ummæli falla með myndbirtingunni: „Allt krökkt af klósettpappír og dömubindum og börn þar að leik. Ótrúlegt að þeir sem bera ábyrgð á umhverfisslysinu sem varð þarna í vetur skuli ekki sjá sóma sinn í því að hreinsa til.“

Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi er fljót að bregðast við færslu Öldu, þakkar henni fyrir ábendinguna og segir henni hafa verið komið til skila. Skömmu síðar birtir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Veitna, athugasemd við færslu Öldu þar sem hann lofar því að Ægisíðan verði hreinsuð.

Býður alla velkomna í  „plokk“

Eftir að hafa athugað með stöðu sjávarfalla birtir Eiríkur aðra færslu þar sem hann segir Veitur ætla að plokka ruslið og skólpleifarnar klukkan fimm í dag. Hann bendir jafnframt á að klósettið sé ekki ruslatunna og biður alla velkomna að „plokka“ með.

Ljóst er að ekki eru allir sáttir við ummæli Eiríks og þykir hann yfirfæra ábyrgðina á umhverfismenguninni yfir á borgarbúa. Einn í Facebook hópi Vesturbæinga skrifar athugasemd þar sem segir að þetta sé „ótrúlega óforskömmuð uppástunga og ósmekkleg athugasemd um að borgarbúar beri einhverja ábyrgð á þessu umhverfisslysi með því að setja klósettpappír í klósettið!“

Á ársfundi Orkuveitu Reykjavíkur (móðurfélags Veitna) á miðvikudaginn í síðustu viku héldu Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, báðir erindi þar sem þeir sögðu eitt af hlutverkum og markmiðum Orkuveitunnar vera hreinar strendur – alltaf.