Bakkavör Group þarf að greiða íslenskum kröfuhöfum sínum um 500 milljónir punda, yfir 100 milljarða króna, á næstu rúmu fjórum árum ef nauðasamningar félagsins eiga að ganga upp.

Samningarnir, sem byggja á endurskipulagningaráætluninni „ProjectCrocodile“ gera ráð fyrir að bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir muni eignast 25 prósenta hlut í Bakkavör í lok júní 2014 takist þeim að haga rekstri fyrirtækisins með þeim hætti að þeir geti greitt kröfuhöfum sínum að fullu fyrir þann tíma.

Viðskiptablaðið hefur „Project Crocodile“ undir höndum. Hún byggir á ráðgjöf breska fyrirtækisins Talbot Hughes McKillop sem hefur unnið með aðilum málsins frá síðastliðnu hausti.

Helstu kröfuhafar Bakkavarar Group eru Arion banki, skilanefnd Kaupþings, skilanefnd Glitnis, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi Lífeyrissjóður.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .