Aðgerðir Seðlabankans halda áfram að blása nýju lífi í markaði: Gengi krónu styrkist, hlutabréf hækka og skuldatryggingaálag viðskiptabankanna lækkar annan daginn í röð. Fjárfestar virðast sömuleiðis vera að sækja í sig veðrið og áhættufælni er að hjaðna.

Á móti kemur að krónan hafði veikst umtalsvert í kjölfar þess að fjárfestar voru orðnir þreyttir á að bíða eftir því að Seðlabankinn brygðist við en í um sex vikur var búið að gefa mönnum undir fótinn. Því var frekara svigrúm til styrkingar. Á föstudaginn tilkynnti Seðlabankinn um gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs upp á um einn og hálfan milljarð evra.

Sama dag leit dagsins ljós mesta styrking krónu frá því í apríl 2002 eða um 4,1% en í gær styrktist hún um 0,8% og er 147,9 stig við lok markaðar. Skuldatryggingaálagið á Landsbankann lækkaði mest í gær, fór í 185 punkta úr 218; hjá Glitni lækkaði það um tíu punkt í 375 en stóð í stað hjá Kaupþingi í 425, samkvæmt upplýsingum Bloomberg.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur í greiningardeild Glitnis, segir þessar aðgerðir Seðlabankans hafi breytt skoðun manna á krónu til hins betra.

„Þeir sem hafa verið svartsýnir í garð krónu og vilja taka stöðu gegn henni eru smeykari en áður,“ segir hann og bendir á að enn sé vaxtamunurinn ekki virkur á skiptasamningamarkaðnum. Engu að síður er nú styttra í að sá markaður hrökkvi í gang aftur.

„Þegar það gerist, þá geta þeir sem eru í stöðutöku á móti krónunni fengið það ansi illilega í andlitið,“ segir Jón Bjarki.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .