*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Innlent 17. október 2017 15:19

Krónan ekki fjarri jafnvægisgengi

Arion banki telur að afnám bindiskyldu vegna minni vaxtamunar geti styrkt krónuna, en einungis tímabundið.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Greining Arion banka segir í samantekt um íslensku krónuna sem bankinn segir nú nokkuð í umræðunni eins og alltaf í aðdraganda kosninga, að gengi hennar sé í ágætu samræmi við undirliggjandi áhrifaþætti til lengri tíma.

Raungengið er að mati bankans ekki fjarri jafnvægisraungenginu, og því sé það í ágætu samræmi við það sem standist til lengdar. Með talsverðum viðskiptaafgangi sjáist jafnframt að hagkerfið í heild virðist ráða við gengi krónunnar í dag.

Þó geti mikill hagvöxtur, viðskiptaafgangur og möguleg losun bindiskyldu styrkt krónuna nokkuð, en bankinn telur að bindiskyldan á fjárfestingar erlendis frá í innlánum og skuldabréfum ekki eiga jafnmikið við og áður með minnkandi vaxtamun. 

Ekki föst í árstíðasveiflu

Slík áhrif yrðu þó einungis til skamms tíma að mati bankans, sem segir jafnframt að tölfræðileg skoðun sýni að ekki sé nein merki um árstíðasveiflu í krónunni. Þetta er þvert á það sem haldið hefur verið fram samanber aukið gjaldeyrisstreymi frá ferðamönnum yfir sumarmánuðina og vegna vertíðar og aflabragðasveiflna í sjávarútvegi. 

Ástæðan sé að hluta til vegna þess að þegar búist er við auknu gjaldeyrisinnflæði vegna til að mynda hápunkts ferðaþjónustutímabilsins bregðist aðrir aðilar á markaði við því sem þurrki út öll árstíðabundin áhrif.

Dregið hefur úr sveiflum

Bankinn segir að rétt sé að íslenska krónan hafi verið sveiflukenndur gjaldmiðill sögulega, líkt og hagkerfið svo sem allt, en þrátt fyrir að stöðugleiki haftaáranna sé nú lokið, hafi dregið úr sveiflunum sem urðu á gengi hennar fyrst eftir að losað var um gjaldeyrishöftin.

Þannig sé eins árs flökt krónunnar á svipuðum stað og gildir á öðrum myntsvæðum. Benda þeir á að Seðlabankinn hafi nánast alfarið hætt afskiptum af millilandamarkað með gjaldeyri. Jafnframt geti það í raun verið hættulegt fyrir Seðlabankann að ætla að grípa inn í þó getan sé töluverð með gjaldeyrisforða sem samsvari liðlega fjórðungi af vergri landsframleiðslu.

Óraunhæft að dalurinn kosti 60 krónur á ný

Greiningardeildin rifjar jafnframt upp eldri greiningu sína á áhrif evru-dollar krossins á gengi krónunnar en það virðist sem áhrif þess komi að 81% fram í gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadalnum. Þessi áhrif virðast vera virk á ný í kjölfar afnám gjaldeyrishaftanna.

Raungengi íslensku krónunnar gagnvart viðskiptamyntum  verður fyrir verðbólguáhrifum, bæði hér heima og erlendis, þó fyrst og fremst hafi hún áhrif á nafngengið. 

En vegna mikillar hækkunar á verðlagi og launa hér á landi er óraunhæft að búast við því að nafngengi krónu nái aftur á sömu slóðir og var árið 2007 þegar Bandaríkjadalur kostaði 60 krónur. Þá yrði Ísland að langdýrasta landi í heimi, með langhæstu laun í heimi.

Stikkorð: Arion banki Krónan gjaldmiðlar gengi