Nátengd áhættulyst er fylgni í þróun gengis hávaxtagjaldmiðla. Háir innlendir skammtímavextir hér á landi síðustu misserin hafa laðað að erlenda fjárfesta og sett krónuna í flokk þeirra hávaxtamynta sem hafa verið vinsælar til vaxtamunarviðskipta.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis í morgun.

Þar segir að einnangi af þeim viðskiptum er útgáfa krónubréfa. Þá kemur fram að fylgni í þróun gengis krónunnar og annarra hávaxtagjaldmiðla á borð við tyrknesku líruna, nýsjálenska dalinn og suður-afríska randið gagnvart evru hefur verið allsterk síðustu misserin, en þessar myntir hafa líkt og krónan verið vinsælar til vaxtamunarviðskipta síðustu ár.

Greining Glitnis segir hreyfingar í þessum gengiskrossum ráðast að verulegu leyti af áhættulyst fjárfesta.

„Þeir aðilar sem stunda vaxtamunarviðskipti eru viðkvæmir fyrir aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og geta verið fljótir að loka stöðum með hávaxtamyntum þegar svo ber undir og leita í öruggara skjól með fjárfestingar sínar,“ segir í Morgunkorni.

„Frá miðju síðasta ári þegar skilyrði versnuðu skyndilega á fjármálamörkuðum og fram í mars á þessu ári var fylgni í þróun gengis krónu og þessara mynta gagnvart evru afar sterk en hefur minnkað aðeins síðan þótt jákvæð fylgni sé vissulega enn til staðar.“

Þá segir Greining Glitnis að ein meginástæða þess er að um þetta leyti fór þrenginga að gæta á innlendum gjaldeyrisskiptamarkaði vegna skerts aðgengis að erlendu láns- og lausafé, og vaxtamunur gagnvart evru í framvirkum samningum dróst verulega saman sem leiddi til þess að stöðutaka í krónu eftir einni helstu leið vaxtamunarviðskipta, þ.e. stuttum vaxtaskiptasamningum, gefur ekki það af sér sem stýrivextir Seðlabankans gefa til kynna og dregur þannig úr ábata af vaxtamunarviðskiptum.

„Má segja að krónan sé því ekki lengur fullgildur meðlimur í klúbbi hávaxtamynta þótt vextir hér á landi séu nú þeir næsthæstu meðal landa með þróaðan fjármálamarkað,“ segir í Morgunkorni.