Gengi krónunnar hefur styrkst um rúm 2,2% síðan á miðvikudag og hefur gengi krónunnar ekki verið sterkara síðan fyrir áramót. Það sem af er degi hefur gengið styrkst um 0,83%. Styrkingin skýrist líklega ekki af inngripum Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði, samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Arion banka. Þar er talið að aukið innflæði styðji við krónuna auk þess sem ekki megi útiloka að samningur Seðlabankans við Landsbankans um gjaldeyrisviðskipti upp á 6 milljarða króna kunni að létta þrýstingi af krónunni.

Í frétt vb.is á miðvikudag um samninginn sagði m.a. að Seðlabankinn telji að hann hafi með samningnum og öðrum aðgerðum sem þegar hafi verið gripið til mætt þeim áhrifum sem útgáfa skilyrta skuldabréfsins til LBI hf. hafi sett á gjaldeyrisjöfnuð bankans. Seðlabankinn sagði sömuleiðis að bankinn hafi átt í framvirkum gjaldeyrisviðskiptum sem dragi úr gjaldeyrismisvægi í bankakerfinu og létta þrýstingi af krónunnni á komandi mánuðum.

Helstu gjaldmiðlar ódýrari nú en um áramótin

Ein evra kostar nú 167,7 krónur og hefur hún ekki verið ódýrari síðan rétt fyrir síðustu jól. Svipaða sögu er að segja að danskri krónu, en ein slík kostar nú 22,48 íslenskar krónur. Þá kostar eitt breskt pund 194,33 krónur og hefur gjaldmiðillinn ekki verið á þessum slóðum síðan í september í fyrra. Bandaríkjadalur og jen eru hins vegar á svipuðum slóðum og í byrjun mánaðar.