Mjög mikil viðskipti voru á fjármálamörkuðum í dag. Krónan veiktist strax við opnun markaða en staðnæmdist um hádegið og er 119,57 stig við lokun markaða í dag sem er 2% veiking innan dags, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Krónan hefur ekki verið veikari síðan september 2004 en þetta gildi er nokkuð nærri meðaltali vísitölunnar fyrir síðustu 10 ár og getur því ekki talist sérlega veikt í langtímasamhengi, segir greiningardeildin.

Þess má vænta að lækkun gengisins síðustu daga og vikur muni skila töluverðri verðbólgu á næstu mánuðum.

Í ljósi dökkra verðbólguhorfa telur greiningardeild Kaupþings banka góð kaup í verðtryggðum skuldabréfum þessa dagana.

Ávöxtunarkrafa verðtryggðra bréfa hélt áfram að lækka í dag í talsverðum viðskiptum á meðan óverðtryggða krafan hélt áfram að hækka.

Telja má líkleg að fjárfestar séu að færa sig úr óverðtryggðum bréfum í verðtryggð bréf enda ljóst að verðbólgutölur fyrir mars, sem birtust á föstudaginn, voru talvert umfram væntingar greiningaraðila á markaði.