Krónan hefur haldið áfram að veikjast síðustu vikuna og stóð gengisvísitala krónunnar í 215,6 stigum klukkan 11 í dag. Hefur krónan ekki verið jafn veik miðað við gengisvísitöluna síðan í lok júní í fyrra. Þessa þróun á síðustu dögum má einna helst rekja til þróunar á gengi krónunnar gagnvart evru og nú þegar þetta er ritað kostar evran um 161,3 krónur. Hefur gengi krónunnar í raun ekki verið jafn veikt gagnvart evru síðan um miðjan maí í fyrra. Þess má geta að um síðustu áramótum var evran á rétt rúmar 153 krónur og hefur krónan þar með veikst um 5,0% gagnvart evru frá þeim tíma.

Þetta segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka í morgun.

„Augljóslega má rekja þá hækkun sem hefur orðið á gengisvísitölunni til fleiri gjaldmiðla en einungis evrunnar, eins og breska pundsins og Bandaríkjadollars. Nokkuð flökt hefur verið á gengi þessara mynta gagnvart krónu undanfarið og hefur gengi krónunnar þannig verið veikara gagnvart þeim á þessu árinu en það er nú. Nú þegar þetta er ritað kostar pundið 188,4 krónur en hafði verið á 180 krónur um síðustu áramót. Bandaríkjadollar er nú á 116,3 krónur en kostaði um síðustu áramót 115,3 krónur. Þó er ljóst að af einstaka myntum þá hefur krónan veikst mest gagnvart sænsku krónunni og í raun hefur gengi hinnar íslensku aldrei verið jafn veikt og nú gagnvart hinni sænsku.

Nú þegar þetta er ritað er sænska krónan á 18,4 íslenskar krónur og hefur hin íslenska þar með veikst um rétt tæplega 7% gagnvart hinni sænsku á tímabilinu. Sænska krónan hefur verið á töluverðri siglingu á gjaldeyrismörkuðum undanfarið, enda hafa efnahagshorfur í Svíþjóð batnað töluvert og sænski seðlabankinn er talinn munu halda áfram vaxtahækkunarferli sínu fram eftir árinu,“ segir í Morgunkorni.