*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 29. júlí 2017 16:45

Krónan er enginn sökudólgur

Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir að óstöðugleiki íslensks efnahagslífs og háir vextir hafi ekkert með krónuna að gera.

Snorri Páll Gunnarsson
Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Árnason, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, segir að óstöðugleiki íslensks efnahagslífs og háir vextir hér á landi hafi ekkert með krónuna að gera. Óstöðugleikinn stafi af smæð hagkerfisins og það hversu háð hagkerfið er náttúrugæðum; háir vextir stafi einfaldlega af því að Seðlabankinn ákveður að hafa háa vexti á Íslandi.

Þetta sagði Ragnar í skoðanagrein sem birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Greinin bar heitið „Misskilningur um krónuna leiðréttur“. Leitast hann þar við að hrekja staðleysur um íslensku krónuna og útrýma misskilningi þeirra sem berjast fyrir því að leggja eigi krónuna niður. „Þeir fullyrða að krónan sé orsökin fyrir hærri vöxtum á Íslandi en í nágrannalöndunum. Hvort tveggja er í grundvallardráttum rangt.“

Íslenskt hagkerfi er smátt, sem þýðir að grunnatvinnuvegir þjóðarinnar eru fáir og miklu færri en í stærri hagkerfum. Afleiðingin af því er sú að óstöðugleiki er meiri því færri atvinnuvegir eru til staðar til að jafna sveiflur hvers annars. Þá eru þessir grunnatvinnuvegir í ríkum mæli byggðir á náttúrugæðum. Náttúran er misgjöful og það veldur einnig sveiflum í hagkerfinu. Óstöðugleiki hagkerfisins, sem stafar af smæð hagkerfisins og duttlungum náttúrunnar, hefur því ekkert með krónuna að gera, að sögn Ragnars.

Þá segir Ragnar að það sé ekkert lögmál krónunnar að vextir á Íslandi séu hærri en víðast hvar annars staðar. Ástæðan fyrir háum vöxtum sé einfaldlega sú að Seðlabankinn hefur ákveðið að hafa vexti háa. Það sé ekki rétt, eins og Seðlabankinn hefur haldið fram, að háir vextir séu nauðsynlegir vegna þess hve krónan er lítil á hinum alþjóðlega gjaldeyrismarkaði. Þvert á móti sé það einmitt vegna smæðar myntarinnar að ófært sé að halda uppi hærri vöxtum á Íslandi en annars staðar.

Að lokum bendir Ragnar á að eitt af skilyrðunum fyrir því að hagkvæmt geti verið að sameina myntir tveggja landsvæða er að hagsveiflur viðkomandi svæða séu svo samstillar að sama peningastjórn henti báðum. „Hvað Ísland og flest nágrannalöndin beggja vegna við Atlantshafið snertir er þessu ekki að heilsa. Þvert á móti er það eiginlega merkilegt hversu lítil (og jafnvel neikvæð) fylgni er á milli hagsveiflna á Íslandi og hagsveiflna í Evrópu og Norður-Ameríku. Því myndi peningastjórn þessara landa að öllum líkindum henta Íslandi afar illa og hugsanlega valda alvarlegum búsifjum.“