*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 3. júlí 2017 11:14

Krónan er miðstýringartól

Heiðar Guðjónsson fjárfestir segir krónuna þjóna stjórnlyndum embættismönnum og telur trúna á miðstýringu lifa góðu lífi í Seðlabanka Íslands.

Snorri Páll Gunnarsson
Eva Björk Ægisdóttir

Heiðar Guðjónsson fjárfestir segir krónuna þjóna stjórnlyndum embættismönnum og telur trúna á miðstýringu lifa góðu lífi í Seðlabanka Íslands. 

Nú er nefnd að störfum um endurskoðun peningastefnunnar. Er óbreytt ástand í peninga- og gjaldmiðilsmálum valkostur í þínum huga?

„Óbreytt ástand er valkostur ef fólk vill búa við skert frelsi. Það er ekki hægt að vera með sjálfstæða peningastefnu, sem miðar að því að gæta verðstöðugleika með stýrivöxtum, ásamt því að reka smæsta myntsvæði í heimi kvikra fjármagnsflutninga og reyna að vera með stöðugt gengi. Efnahagslögmálin banna það. En Seðlabanki Íslands hefur reynt að halda krónunni stöðugri með aukinni miðstýringu. Trúin á miðstýringu lifir góðu lífi í Seðlabankanum. Hann tók yfir gjaldeyriseftirlitið, er enn með höft á innflæði fjármagns og vill helst taka yfir Fjármálaeftirlitið. Hvað kemur næst?

Stærstu útflutningsfyrirtæki landsins, einkum í sjávarútvegi, raforkuframleiðslu og flutningum, eru flest komin út úr krónunni. Það er þó aðstöðumunur. Smærri fyrirtækin komast ekki út úr krónunni og skila flest tapi vegna mikillar gengisstyrkingar. Atvinnulífið og útflutningsfyrirtækin einfaldlega þola ekki miklar gengissveiflur. Þannig að krónan er ekki til fyrir útflutningsgreinarnar. Þá spyr maður sig fyrir hvern krónan er í raun og veru. Ég held að krónan sé til fyrir stjórnmálamenn, stjórnlynda embættismenn og þá sem trúa á miðstýringu, vegna þess að þeir geta þjóðnýtt mistök sín með gengisfellingu eða peningaprentun. Fyrir þá sem trúa á atvinnulífið og frjáls viðskipti getur krónan aldrei verið raunhæfur valkostur.

Það fylgir því líka kostnaður að vera með krónuna vegna þess að það þarf gríðarlega stóran gjaldeyrisforða. Og kostnaðurinn við forðahaldið, það er vaxtamunurinn við útlönd, hefur gert Seðlabankann gjaldþrota. Hann er búinn með allt sitt eigið fé. Peningastefnan er því í algjöru öngstræti. Gengissveiflur krónunnar draga einnig úr utanríkisviðskiptum og leika heimilin grátt í verðtryggðu kerfi. Þá skilar krónan hærri raunvöxtum, sem skilar hærri kostnaði innanlands.

Það sem hentar best fyrir Ísland, að mínu mati, er gjaldmiðlafrelsi. Það sem felst í því er að almenningur og fyrirtæki geti valið þann gjaldmiðil í viðskiptum sem hentar þeim best. Þá keppast myntir að. Þeir sem vilja nota krónuna geta notað hana áfram og þeir sem vilja nota mynt með alþjóðlegt greiðsluhæfi geta gert það. Ef krónan er svona frábær ættu aðdáendur hennar ekki að óttast slíka samkeppni.“

Seðlabankinn státar sig oft á því að verðstöðugleiki undanfarinna ára sé peningastefnunni að þakka. Hver er þín skoðun á því?

Verðstöðugleikinn er engan veginn Seðlabankanum að þakka. Við erum að flytja inn verðhjöðnun, sem stafar af breytingum í framleiðni í heiminum, og hún er að halda aftur af verðbólgunni. Undirliggjandi verðbólga á Íslandi er mjög há, en krónan hefur verið að styrkjast og allt innflutningsverðlag verið að lækka. Þessi stöðugleiki er bara svikalogn.“

Nánar er rætt við Heiðar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is