Krónan er ofmetin miðað við lengri tíma horfur í efnahagsmálum og mjög miklar líkur eru á því að gengi hennar muni lækka þegar litið er 1-2 ár fram í tímann segir í Morgunkorni Íslandsbanka. "Það hefur hins vegar verið skoðun okkar um talsvert langan tíma að krónan haldist sterk fram eftir því hagvaxtarskeiði sem nú stendur yfir. Krónan getur því vel haldist sterk fram á næsta ár a.m.k. Að okkar mati má búast við að gengi krónunnar muni heldur gefa eftir næstu daga og vikur og að mikið flökt verði í gengi hennar," segir í Morgunkorninu.