Íslenska krónan hefur skilað því að landið er mun betur statt en þau Evrópuríki sem föst eru með evru sem þjóðargjaldmiðil. Ólíkt þeim sem halda í evruna gátu Íslendingar nýtt sér gengishrunið til að spyrna við fótum og keyra hagkerfið upp úr kreppunni. Þetta hefur jafnframt skilað þeim árangri að fjárfestar hafa meiri trú á kaupum á íslenskum ríkisskuldabréfum en evruríkja, að því er fram kemur í umfjöllun bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal í dag í tilefni af dollaraútgáfu ríkissjóðs í síðustu viku.

Ríkissjóður seldi ríkisskuldabréf upp á einn milljarð dala, jafnvirði 126 milljarða króna.

Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra, á ársfundi Landsvirkjunar þann 12.04.2012.
Oddný G. Harðardóttir, fjármálaráðherra og starfandi iðnaðarráðherra, á ársfundi Landsvirkjunar þann 12.04.2012.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Greinahöfundur Wall Street Journal hefur eftir Oddnýju G. Harðardóttur fjármálaráðherra, að útgáfan sé mikilvægur áfangi eftir hrun efnahagslífsins.

Tekið er fram víða í umfjöllun blaðsins að dyr alþjóðlegra lánamarkaða séu Íslendingum greinilega opnar. Öðru máli gegni hins vegar um Íra og Portúgali sem glími við mikla skuldabyrði.

Fram kemur í viðtölum blaðsins við fjármálasérfræðinga að ólíkt evruríkjunum sem hafi lent í skuldavanda þá hafi það skipt sköpun í viðspyrnunni úr kreppunni að hér sé sjálfstæð stjórn peningamála og sveigjanlegt hagkerfi. Þá sé að draga úr atvinnuleysi ólíkt því sem er að gerast víða í Evrópu. Bent er á að gert sé ráð fyrir 2,4% hagvexti hér á þessu ári sem sé langur vegur frá 7% samdrætti fyrir þremur árum. Það sem keyrt hafi hagvöxtinn áfram sé vöxtur í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Þá skiptir ekki minna máli að erlendir fjárfestar tengi landið ekki við evruríkin. Þvert á móti valdi krónan því að þeir tengi landið fremur við hin Norðurlöndin en meginland Evrópu, að því er fram kemur í Wall Street Journal.