Að mati Greiningardeildar Arion banka er möguleiki á því að íslenska krónan sé á leið til styrkingar. Ýmsir þættir togi þó með mismunandi hætti í krónuna og gætu þeir bæði leitt til styrkingar eða veikingar. Greiningardeildin telur upp þrjú meginrök fyrir því að krónan gæti verið að hefja nýjan styrkingarfasa.

Í greiningu bankans er ekki falin spá um hvernig gengið muni þróast, heldur eru aðstæður aðeins greindar og mögulegar útkomur taldar upp. Nánar er farið út í ástæðurnar í greiningunni sem lesa má í heild sinni með því að smella hér.

Vaxtamunur við útlönd

Mögulegt er, að mati Greiningardeildarinnar, að undirliggjandi verðbólguþrýstingur leiði til stýrivaxtarhækkunar á Íslandi. Þá eru kjör erlendis á öndverðum meiði, þar sem lækkandi hrávöruverð og erfiðleikar og hægagangur á heimsmörkuðum verða til þess að margsstaðar séu þeir jafnvel neikvæðir. Þetta getur leitt til þess að fjárfestar sjái sér hag í því að fjármagna sig í lágvaxtamynt en fjárfesta í hávaxtamynt eins og krónunni, sem gæti leitt til aukins innflæðis fjármagns, sem svo styrkir krónuna.

Afgangur af utanríkisviðskiptum og hagstæð viðskiptakjör

Viðskiptajöfnuður hefur verið jákvæður undanfarin ár og útlit er fyrir að svo verði áfram á næstunni, m.a. vegna áframhaldandi fjölgunar ferðamanna. Það þýðir að hagkerfið er að bæta eignastöðu sína í erlendri mynt svo gengið ætti að styrkjast að öðru óbreyttu.

Gott efnahagsástand og -horfur

Góðar efnahagshorfur geta haft áhrif til styrkingar gengisins. Ef hagvaxtarhorfur í einu landi eru betri en annars staðar er líklegt að fjármagn flæði í meira mæli til þess lands þar sem væntingar um ávöxtun í því landi eru að jafnaði hærri. Horfur eru á að hagvöxtur á Íslandi í ár verði, sem og í fyrra, með því allra besta meðal þróaðra ríkja.