Sterkt gengi krónunnar í sumar getur ekki gengið til langframa. Þvert á móti þarf það að veikjast áfram svo gjaldeyrissköpun þjóðarinnar verði áfram nægjanleg til að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum í fyrirsjáanlegri framtíð. Gengið hefur veikst um 3,5% frá vaxtaákvörðun Seðlabankans í síðustu viku.

Greiningardeild Arion banka bendir á það í Markaðspunktum sínum í dag, að nýbirtar tölur um þróun vöru- og þjónustviðskipta gefi til kynna að mikill afgangur á undangengnum árum fari nú ört minnkandi. Á fyrstu sex mánuðum ársins hafi afgangurinn numið einungis 40 milljörðum króna, eða 4,5% af landsframleiðslu. Á sama tíma í fyrra nam afgangurinn ríflega 8% af landsframleiðslu. Greiningardeildin segir þetta vera vísbendingum að að gengi krónunnar hafi síður en svo verið of veikt á fyrri helmingi ársins.

„Nýjasta spá Seðlabankans gerir ráð fyrir afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum uppá 6,4% af landsframleiðslu á þessu ári, eða ríflega 110 milljörðum króna. Í þeirri spá var gert ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar til næstu ára og miðað við tölur um vöru- og þjónustujöfnuð á fyrri helmingi ársins má velta því fyrir sér hvort að vöru- og þjónustujafnaðarspáin sé ekki nokkuð jákvæð – af því gefnu að gengisforsendur þeirra gangi eftir (sem við óttumst reyndar að sé fullbjartsýn forsenda),“ segir í Markaðspunktunum.