Eftir að hafa tekið nokkra lækkun fyrrihluta janúar hefur krónan haldist nokkuð stöðug síðan. Frá 1. til 21. janúar síðastliðinn fór evran úr því að kosta 153,2 krónur í að kosta 158,7 krónur, sem samsvarar 3,5% lækkun á gengi krónunnar gagnvart evrunni. Er þetta svipuð lækkun og varð í gengi krónunnar gangvart viðskiptavegnu meðaltali gjaldmiðla en sú lækkun var 3,1%. Gengi evrunnar stendur nú í 159,9 kr. og hefur krónan því lækkað um 0,8% til viðbótar gagnvart henni, en sú lækkun átti sér stað núna um miðjan febrúar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka sem fjallar um gjaldeyrismarkaðinn í dag.

Ástæður lækkunar tímabundnar

Helstu hugsanlegu ástæður lækkunar krónunnar á fyrstu vikum ársins eru tímabundnar að mestu. Má þar nefna árstíðarsveiflu í gjaldeyristekjum af ferðamönnum og áhrif af kaupum Seðlabankans á gjaldeyri af bönkunum í lok síðasta árs. Önnur áhrif og varanlegri kunna að vera vaxtagreiðslur af innlendum ríkisskuldabréfum til erlendra aðila, sem og minni munur á innlendum og erlendum vöxtum sem komið hefur til vegna vaxtalækkana Seðlabankans undanfarið,“ segir í Morgunkorni.

Lítil en  vaxandi velta á millibankamarkaði með gjaldeyri

„Veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri hefur verið lítil undanfarið. Í janúar var hún 22 milljónir evra og tæplega 40 milljónir evra í febrúar. Veltan það sem af er ári hefur samt verið talsvert yfir því sem hún var á sama tíma fyrir ári en samanlögð velta á millibankamarkaðinum með gjaldeyri á þessum í fyrra var 11 milljónir evra. Stór þáttur í þessum vexti eru kaup Seðlabankans á gjaldeyri sem hafa staðið yfir frá því í ágúst í fyrra. Á bankinn þannig um fimmtung af veltunni á gjaldeyrismarkaðinum á fyrstu 2 mánuðum þessa árs en hann átti engin viðskipti á millibankamarkaðinum með gjaldeyri á þessu tímabili í fyrra.

Áætlun um afnám hafta birt 11. mars

Væntingar um afnám hafta og áhrifin af því gæti hafa haft áhrif á gengi krónunnar undanfarið, en áætlun um það efni átti að líta dagsins ljós fyrir upphaf þessa mánaðar. Sérstakur stýrihópur undir stjórn Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur að undanförnu verið að útfæra áætlunina. Auk hans sitja í stýrihópnum fjármálaráðherra, Seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Seðlabankinn mun í þessari viku afhenda stýrihópnum greinargerð sína um losun gjaldeyrishafta og drög að tillögum. Í kjölfarið verður tillaga að áætlun um afnám hafta lögð fyrir ríkisstjórn og er reiknað með því að ríkisstjórnin taki afstöðu til áætlunarinnar eigi síðar en 11. mars og að samþykkt áætlun verði birt síðdegis þann sama dag samkvæmt því er fram kemur í tilkynningu frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu um þetta efni.“