Krónan hefur haldið áfram að styrkjast í dag og er vísitalan nú í 234 sem jafngildir um 6% styrkingu.

Að sögn Ingólfs Áskelssonar hjá Landsbankanum er upplifunin sú að fólk sé að sækja meira inn í krónur á meðan þau höft sem nú gilda eru við lýði.

Ingólfur sagði að þetta virtist vera í takt við það sem Seðlabankinn hefði verið að vonast eftir en vissulega hefðu margir óttast veikingu í dag.

„Veltan er hins vegar ekkert í líkingu við það sem hún var þegar krónan var frjáls. Miðað við stöðuna í dag er þetta þó viðunandi og þetta er í takt við það sem menn vonuðst eftir."