Undanfarinn mánuð, eða frá 6. júní, hefur íslenska krónan veikst um 6,7% gagnvart sínum helstu viðskiptamyntum miðað við gengisvísitölu.

Krónan hefur veikst um 6,3% gagnvart Bandaríkjadollar, 6,4% gagnvart breska pundinu, 7% gagnvart evrunni, 10,4% gagnvart Kanadadollar, 7% gagnvart dönsku krónunni, 6,8% gagnvart norsku krónunni, 8,2% gagnvart sænsku krónunni, 6% gagnvart svissneska frankanum og 2,4% gagnvart japanska jeninu.

Greiningaraðilar hafa bent á að veikingin tengist að öllum líkindum fjármagnshreyfingum. Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,25% í 4,50% á tímabilinu, sem hefur eflaust haft áhrif á gengi krónunnar.

Seðlabankinn keypti krónur í næstsíðustu viku til að vinna gegn veikingu krónunnar en bankinn hefur ekki keypt jafn mikið af krónum síðan 2008. Inngrip bankans vöktu hörð viðbrögð meðal forsvarsmanna íslenskra útflutningsgreina, líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku.

Frá áramótum hefur krónan þó styrkst um 3,5%.