Það virðist lítið lát á styrkingu krónu á aflandsmarkaði enn sem komið er en núverandi gengiskross (EUR/ISK) er í kringum 200 krónur. Á sama tíma er evran að seljast á 170 krónur hér heima og styrktist lítillega gagnvart krónunni í dag. Sérfræðingur á gjaldeyrismarkaði sem rætt var við sagðist sjá jákvæð teikn fyrir gengisþróun eftir afléttingu hafta.

,,Það er að vísu ekki hægt að segja að krónunar klárist erlendis, þar sem undir höftunum flæða þær frá einum útlendingi til annars, svo lengi sem farið er eftir reglum Seðlabanka. Hins vegar getur minna framboð á krónum verið til marks um að þær safnist jafnt og þétt á hendur eigenda sem hyggjast halda þeim fram yfir afnám haftanna," sagði viðkomandi sérfræðingur.

Hann benti á að þeir sem kaupa krónur á núverandi aflandsgengi eru í öllu falli ekki trúaðir á að gengi krónu eftir afnám hafta verði lægra en EURISK200 (núverandi aflandsgengi) til meðallangs tíma litið.