Ísland stendur vel að vígi í samanburði við hin Norðurlöndin er helstu hagtölur landanna eru bornar saman. Einungis í Noregi er landsframleiðsla á mann meiri og hvergi hefur hagvöxtur verið meiri frá og með árinu 2013. Atvinnuleysi er langminnst hér á landi.

Danski hagfræðingurinn Lars Christensen, sem oft hefur veitt íslenskum stjórnvöldum ráðgjöf og haldið fyrirlestra hér á landi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að mismunandi peningastefna landanna hafi miklu ráðið um frammistöðu í kjölfar hrunsins.

„Það er klárt að munurinn á peningastefnu hefur haft mikil áhrif. Finnland er með evru og danska krónan er fest við evru og þessi lönd lentu í miklum vanda þegar Seðlabanki Evrópu hækkaði vexti í tvígang á árunum 2011-2013. Þessar vaxtahækkanir höfðu mjög neikvæð áhrif. Ísland lenti auðvitað verst í hruninu 2008-09 en það er augljóst að undanfarin ár hafa Svíþjóð og Ísland staðið sig betur en hin löndin. Lægra olíuverð hefur reynst Noregi erfitt en þeir hafa samt staðið sig betur en Danir,“ segir Lars.

Umfang ríkisins of mikið í Danmörku

Hann segir einnig að slæma frammistöðu Danmerkur megi þar að auki rekja til of umsvifamikils opinbers geira.

„Fyrir hrun var Danmörk bersýnilega að vaxa hægar en öll hin Norðurlöndin, um það bil 1% undir meðaltali á ári frá 2000 til 2008. Vandinn er að opinberi geirinn er mun stærri þar heldur en á hinum Norðurlöndunum og það hefur hægt á hagvexti undanfarin 10-15 ár,“ segir Lars. Þar að auki sé allt of lítið um frumkvöðlastarfsemi í Danmörku sem og skortur á samkeppni í ýmsum geirum. Fyrst og fremst þurfi þó að lækka skatta og minnka umsvif hins opinbera.

Hann býst þó við því að hagvöxtur Norðurlandanna komi til með að verða svipaðri á komandi árum, þannig muni hann dragast saman á Íslandi og aukast annars staðar.

„Ég tel að vöxtur næstu ára verði svipaðri á öllum Norðurlöndunum, ég tel að Ísland og Svíþjóð hafi vaxið of hratt undanfarið. Augljóslega féll Ísland niður í dýpri holu og þurfti hraðari vöxt, en holunni hefur verið lokað og þjóðin mun ekki geta haldið sama vexti til lengri tíma,“ segir Lars.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .