*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Innlent 18. ágúst 2019 14:03

Krónan hreyfist á nýjan leik

Gengi íslensku krónunnar er farið að hreyfast eftir að hafa nær staðið í stað yfir hásumarið.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Sú styrking sem varð á gengi krónunnar í júlí er að nokkru leyti gengin til baka. Eftir litla sem enga hreyfingu á gengi íslensku krónunnar frá miðjum júnímánuði fram að miðjum júlímánuði hefur gengi hennar gagnvart evru tekið að hreyfast á nýjan leik. Gengi krónunnar gagnvart evru styrktist á síðustu tveimur vikum júlímánaðar um ríflega 5%, úr 141,7 krónum í 134,7 krónur. Þá hafði krónan ekki verið sterkari frá því í byrjun apríl. Þegar ágúst hófst tók styrkingin að ganga til baka og hefur krónan veikst um 2,4% frá því sem af er þessum mánuði. Krónan veiktist meðal annars um rúmt prósentustig á þriðjudag en sú veiking gekk þó að sumu leyti til baka á miðvikudag.

Það sem af er þessu ári hefur gengi krónunnar verið nokkuð stöðugt eftir töluverða veikingu á haustmánuðum síðasta árs sem gekk þó hressilega til baka undir lok ársins. Það sem af er ári hefur gengi krónu veikst um 3,8% gagnvart evru, tæp 6% gagnvart dollar, 0,5% gagnvart pundi en styrkst um 0,8% gagnvart sænskri krónu. Það skal tekið fram að millibankamarkaður með gjaldeyri í Íslandi er í evrum og því sveiflast gengi krónunnar gagnvart öðrum myntum en evru á nær sama hátt og þær hreyfast gagnvart evru.

Seldu loks gjaldeyri

Að mati sérfræðinga á markaði sem Viðskiptablaðið ræddi við skýrist lítil sem engin breyting á gengi krónunnar yfir hásumarið einfaldlega á því að jafnvægi hafi ríkt á gjaldeyrismarkaðnum. Þá var velta á millibankamarkaði með gjaldeyri frá 14. júní til 16. júlí sáralítil eða einungis 6 milljónir evra. Síðan þá hefur veltan tekið talsvert við sér og frá 17. júlí til 7. ágúst nam veltan 104 milljónum evra.

Sérfræðingar á markaði rekja styrkingu á gengi krónunnar í síðari hluta júlí að einhverju leyti til sölu innlendra aðila á gjaldeyri en almennt hafi fyrirtæki sem sitja á gjaldeyri beðið með að selja á meðan krónan er í veikingarfasa. Hins vegar þurfi fyrirtæki á einhverjum tímapunkti að greiða laun og annan innlendan kostnað og geti þar af leiðandi ekki beðið endalaust með að selja gjaldeyri. Þá hafi einnig skipt máli að færri aðilar hafi selt tekjur í erlendri mynt framvirkt og því sé veltan eðlilega mikil nú þegar fjöldi ferðamanna er í hámarki yfir sumarið. Þegar einn aðili byrjar að selja fylgja aðrir í kjölfarið og því geti hreyfingarnar orðið nokkuð skarpar eins og gerðist 24. júlí þegar krónan styrktist um 2,9%.

Líkt og litlar gengisbreytingar skýrast af jafnvægi á markaðnum skýrast stærri gengisbreytingar af því að jafnvægi er ekki til staðar þar sem framboð eða eftirspurn eftir gjaldeyri eða krónum er einfaldlega meira en á hinni hliðinni. Að sögn sérfræðinga skýrast hreyfingar einnig af fjárfestingaflæði þar sem innlendir jafnt sem erlendir fjárfestar eru að koma inn eða fara út með gjaldeyri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér